Þegar barnið æfir skíðagöngu

Þegar barnið æfir skíðagöngu

Aðkoma foreldra
Þegar barnið æfir skíðagöngu hjá Skíðafélagi Strandamanna (SFS) gegna foreldrar mikilvægu hlutverki. Skráning á æfingar SFS er yfirlýsing foreldra um að vilja koma að starfi félagsins á einhvern hátt. 
SFS er rekið af foreldrum og öðrum velunnurum í sjálfboðastarfi. Öll aðstoð er nauðsynleg og vel þegin. Skíðastarf SFS er bæði skemmtilegt og gefandi. Margar hendur vinna létt verk.

Tímanleg mæting á æfingar
Á æfingum þurfa foreldrar að mæta tímanlega (a.m.k. 15-20 mín fyrr) til að hjálpa iðkendum við að koma sér í viðeigandi búnað og út í braut svo æfingin geti hafist á réttum tíma. 

Frumkvæði foreldra í skála
SFS treystir á frumkvæði foreldra til að vera með umsjón í skíðaskálanum á æfingadögum, hjálpa til við að gefa kakó og ganga frá í skálanum eftir æfingarnar. Þannig náum við að halda skíðaskálanum þrifalegum og getum stolt boðið öðrum gestum afnot af hreinum skála.

Skráð ástundun
SFS leggur áherslu á að börn mæti reglulega á skíðaæfingar og heldur skrá yfir mætingar. Í lok skíðatímabils er börnum veitt verðlaun fyrir góða ástundun. Ástundun með 60% mætingu á skíðaæfingar er verðlaunuð sérstaklega, til viðbótar fá allir iðkendur verðlaunapening.
Mætingar á línuskauta- og styrktaræfingar telja ekki í ástundun.
Stundum eru haldnar aukaæfingar þar sem iðkendur fá tækifæri til að bæta skráningarstöðu sína.  

Innanfélagsmót
Yfir veturinn eru haldin innanfélagsmót og þá þarf oft aðstoð frá foreldrum við tímatöku, brautarvörslu og fleira tilfallandi. Ekki eru veitt sérstök verðlaun fyrir innanfélagsmót en keppnisárangur er birtur á facebook síðu félagsins. Einnig eru haldin stærri mót eins og Strandagangan og þar treystir félagið alfarið á aðkomu foreldra og annara velunnara við framkvæmd mótsins, s.s. vinnuframlag á skíðasvæði og kökuhlaðborð í félagsheimili. 

Skíðaiðkun foreldra
Æfingar og mót eru skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. 

Góð ráð fyrir skíðaiðkun barna
 • Að barnið sé klætt eftir veðri. 
   - Góðir vettlingar (t.d. vindheldar lúffur), hlýjar buxur og jakki sem að hefta ekki hreyfingar barnsins. 
   - Góð innanundirföt, góðir sokkar, buff fyrir háls og andlit sérstaklega ef það er kalt. Gott er samt að klæða sig ekki of mikið því að manni hitnar fljótt við skíðagönguiðkun. 
 • Gott er að vera með aukaföt eins og úlpu til að fara í eftir æfingu. 
 • Passa að vera búin að borða og fara á snyrtinguna áður en mætt er á æfingu. Gott er að vera með vatnsbrúsa eða brúsabelti því börnin eiga það til að vera þyrst á æfingum. Einnig er gott að vera með smá nesti því börnin verða oft svöng eftir æfingarnar.
 • Mikilvægt er að mæta á réttum tíma á æfingar. Þjálfarar og iðkendur hittast við skíðaskálann nema að annað sé tekið fram. 
 • Ef vitað er að barn mætir of seint á æfingu eða forfallast skal láta vita á facebook. 
 • Að barnið sé á skíðum og með stafi sem að hentar bæði hæð þess og þyngd. Þjálfarar geta hjálpað til við val á skíðum sé þess óskað.
 • Gott er að bera vax undir skíðin reglulega yfir veturinn. Fáið leiðbeiningar hjá þjálfara hversu oft þarf að bera undir og hvernig. Þjálfarar aðstoða að sjálfsögðu við þessi mál sem og önnur. Góð aðstaða er í skíðaskálanum til þess að bera á skíðin. 
 • Alveg nýir iðkendur geta fengið skíðaútbúnað að láni hjá SFS til þess að nota og prófa í nokkur skipti áður en skíði eru keypt. Óheimilt er að fara með lánsbúnað af svæðinu.
Barn greiðir æfingagjald fyrir skíðaæfingar og ef við á línuskauta- eða styrktaræfingar. Innifalið í æfingagjaldinu er brautargjald. Ef foreldrar velja að fara á skíði þá greiða þeir brautargjald pr. dag eða vetrargjald sem gildir þá allan veturinn. Sjá nánar undir “Verðskrá SFS”.
Leit