Um hlaupið

Trékyllisheiðin 2024

Trékyllisheiði er fjallvegur á milli Steingrímsfjarðar og Trékyllisvíkur á Ströndum. Leiðin yfir heiðina var greiðasta leiðin á milli þessara byggðarlaga áður en vegur var lagður meðfram sjónum norðan Bjarnarfjarðar. 

Heiðin er vettvangur eins magnaðasta utanvegahlaups sem haldið er á Íslandi. Ef lengsta vegalengdin er hlaupin fara hlaupararnir 48 km yfir fjölbreytt landslag, sem inniheldur heiðar, læki, dalir og fjöll. Hlaupið er ekki aðeins líkamleg, andleg og tilfinningaleg áskorun heldur góð leið til að kynnast öðrum hlaupurum og kynnast íslenskri náttúru í allri sinni dýrð.

Eins og síðasta ár verða fjórar vegalengdir í boði sumarið 2024:
  1. Trékyllisheiðin Ultra 48 km (úr Trékyllisvík, um 1.150 m hækkun)
  2. Trékyllisheiðin Midi 25,7 km (frá Djúpavík, um 650 m hækkun)
  3. Trékyllisheiðin Mini 16,5 km (af Bjarnarfjarðarhálsi, um 300 m hækkun)
  4. Trékyllisheiðin Junior 3,7 km (frá Bólstað, um 70 m hækkun)

Öll hlaupin eru viðurkennd af ITRA (Alþjóða utanvegahlaupasambandinu) og eru hluti af Landskeppni ITRA á Íslandi.

Skíðafélag Strandamanna stendur að hlaupinu, en Strandagöngur félagsins eru vinsæll hluti af Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands. 

Bækistöðvar félagsins eru í nýlegum skíðaskála á Brandsholti í Selárdal inn af botni Steingrímsfjarðar, u.þ.b. 16 km norðan við Hólmavík. Þar enda öll hlaupin.

Upplýsingasíða hlaupsins er einnig á trekyllisheidin.com

Skráning í hlaupið Nánar um hlaupið 2023
Leit